22. nóvember, 2024

Magnús Máni býður sig fram til forseta

Ritstjórn

Ritstjórn

Magnús Máni Sigurgeirsson, athafnamaður og nemandi í 3.X tilkynnti í dag að hann hygðist gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Magnús hefur gegnt stöðu skemmtanastjóra í Menntaskólanum á Akureyri síðastliðið skólaár og hefur fundið fyrir mikilli pressu til þess að bjóða sig fram. Hann mun ferðast um landið á komandi mánuðum til þess að kynna framboðið enn frekar. Magnús tilkynnti framboðið fyrr í dag á facebook.

„Kæru vinir, samnemendur, og landsmenn. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til embættis forseta Íslands. Ég hef fundið fyrir mikilli pressu í kringum mig til þess að gefa kost á mér og hef því ákveðið að fylgja hjartanu beinustu leið inná Bessastaði. Ég ætla mér að opna McDonalds verslun í nafni ríkisins, afskrá öll lán og tryggja það að hver einasti landsmaður fái Völufroska í skóinn um næstu jól.“

Magnús Máni, skemmtanastjóri og forsetaefni.

En hvaða kröfur eru gerðar til frambjóðenda í forsetakosningum? Frambjóðandi þarf að hafa kosningarétt á Íslandi en þarf þó ekki að vera búsettur hér á landi. Til þess að skila in formlegu framboði þarf að fylgja meðmælalisti minnst 1500 einstaklinga sem hafa kosningarétt. Auk þess þarf frambjóðandi að hafa náð 35 ára aldri. Vert er þó að nefna að í samtali við Magnús um framboð sitt sagðist hann ekki ætla að láta það stoppa sig að hann hafi ekki náð 35 ára aldri en hann segir það óljóst í lögum hvort að um sé að ræða líkamlegan eða andlegan aldur.

Fleira skemmtilegt...