30. september, 2024

LMA fullmannað og tilbúið fyrir hvirfilbyl í vor!

Ritstjórn

Ritstjórn

Upp á síðkastið hefur verið meira líf innan veggja skólans á kvöldin, og það ekki að ástæðulausu. LMA hefur verið að halda viðtöl á fullu fyrir teymin sem koma að leikritinu í vor, en fjölmargir skráðu sig að þessu sinni og var valið stjórninni vafalaust erfitt.
Margir nýliðar koma til sögu en einnig munum við sjá kunnugleg andlit á sviðinu í haust. Því er vert að minnast á Ingu Rós sem hefur verið í leikteyminu öll sín ár í skólanum en nú endar hún ferilinn með stæl og leikur Dórótheu, aðalhlutverk sýningarinnar. Hákon Snorri og Þórallur hafa gert hið sama og munu leika ljónið og tinmanninn.
Leiksýningar LMA eru töfrum líkastar ári hverju og efast ritstjórn Hrímfaxa ekki um að hið sama muni gilda um leiksýningu þessa árs. Ritstjórn getur ekki beðið eftir að sjá afrakstur leikfélagsins þegar tannhjólin í LMA vélinni fara að snúast í vor og óskar öllum meðlimum og stjórnar góðs gengis á komandi vertíð.

Fleira skemmtilegt...