30. september, 2024

Félagslífið fer af stað með hvelli – Hrímfaxi snýr aftur!

Ritstjórn

Ritstjórn

Nú er skólaárið farið á flug og þá er ekki eftir neinu að bíða. Hrímfaxi mun því færa ykkur sjóðandi heitar fréttir af öllu sem snýr að skólanum en einnig félagslífinu innan hans og það er heldur betur úr miklu að moða!

Busavikan

Busavikan gekk vel fyrir sig en eins og alltaf þá koma upp mál sem oftast snúa að erjum á milli busanna og böðlanna. Skólameistari þurfti að skerast í leikinn þegar að böðlarnir ætluðust til þess að fátæku busarnir færu að borga sektir fyrir að brjóta óskrifuðu reglur skólans. Sumir busar tóku hins vegar vel í sektirnar og nefndu að þetta væri bara partur af leiknum.

Í lok vikunnar sýndu svo busabekkirnir danshæfileika sína og var það 1.G sem sigraði en afar mjótt var á munum milli þeirra og 1.F sem var afar glæsilegur. Stjórnendur sem voru viðstaddir höfðu orð á því að þetta hefði verið ein glæsilegasta og fjölmennasta Busadanskeppni síðari ára.

Vel mætt á fyrstu kvöldvökuna

Í gær var fyrsta kvöldvaka skólaársins haldin og var það undirfélagavaka Freydísar. Fjölmörg félög skráðu sig og verður spennandi að fylgjast með því hvað þau taka sér fyrir hendur í vetur. Myndbandafélögin voru eins og vanalega með myndbönd en gæðin í sumum voru ekki upp á marga fiska. Við skorum hreinlega á þau að gera betur næst því það er ekki sjálfgefið að nemendur nenni að sitja í kvosinni tímunum saman. En svangir nemendur gleðjast þó alltaf þegar að boðið er upp á nýbakaða pizzu frá Dominos í hléi.

Muninn varla samkeppnishæf

Síðan að þessi miðill fór í loftið hafa verið stöðugar þrætur um hvor sé betri, Hrímfaxi eða Muninn. En eftir gærdaginn þá verður að setja spurningu við þennan meting og hvort Muninn hafi hreinlega efni á því að gagnrýna Hrímfaxa eins og þau hafa gert í seinustu blöðum.  Muninn gefur þrjú blöð út á hverju skólaári, Völvuna, haustblað og vorblað. Blöðin voru eitt sinn stútfull af greinum þar sem ritlistin lék lausum hala en nú til dags eru þetta nánast eingöngu innsendar greinar og langflestar virðast nánast óyfirlesnar. Það er bersýnilegt því í blaðinu má finna haug af stafsetningar- og málfarsvillum, eitthvað sem að við hjá Hrímfaxa vörumst eins og heitan eldinn. Tíminn verður að leiða það í ljós hvort Muninn nær fyrri hæðum en það þykir nú fremur ólíklegt í ljósi þess að góð ritfimi verður æ sjaldgæfari meðal ungmenna.

Fleira skemmtilegt...