1. október, 2024

Hefur verðið í mötuneytinu hækkað upp úr öllu valdi? Sjáðu samanburð!

Ritstjórn

Ritstjórn

Þegar að vorönn hófst tóku eflaust mörg ykkar eftir því að verðið í mötuneytinu hefur hækkað umtalsvert. Þessar hækkanir eru ekkert nýjar af nálinni en síðan að undirritaður hóf skólagöngu sína 2022 þá hefur verðið á 10 skipta kortum farið úr 12.500 kr upp í 16.500 kr. Sú hækkun nemur 32%. Engar smá tölur þegar litið er til þess að vísitala neysluverðs á þessum tíma hefur breyst um aðeins 9,49% og verðbólga í landinu í dag mælist 7,74%.

Fyrir eina máltíð í þessu 10 skipta korti mötuneytisins er fólk þá að borga 1.650 kr en ef maður kaupir staka máltíð þá kostar hún 2.125 kr.

Þegar á þessar upphæðir er litið þá kunna þær að þykja ekki ýkja háar en hinsvegar þá eru gæði matsins oftar en ekki vera með lakara móti. Það kannast öll við kekkjóttu kakósúpuna, ólseigu kjötbitana og næringarlitlu pastaskrúfurnar svo fáein dæmi séu tekin. Margar hverjar af þessum máltíðum eru ólystugar og næringarlitlar og það er ekki gott fyrir fólk enda þarf maður mikla orku til að komast í gegnum langa skóladaga.

En það eru til lausnir. Nemendur hafa nefnilega gjarnan tekið upp á því að fá sér að borða annarsstaðar og búið er taka saman verð á hádegismat á nokkrum vel völdum stöðum fyrir þig kæri lesandi. Og þá er líka gott að spyrja sig spurninguna um hvort meiri gæði matarins séu þess virði fyrir örlítið hærra verð? Eða jafnvel lægra?

Hér er listi yfir matsölustaði innan stuttrar göngufjarlægðar, hvað þeir bjóða upp á og hvað hvert skipti kostar miðað við klippikort hjá þeim.

Subway – 1.449 kr fyrir 6 tommu bát dagsins. Það gera 14.490 kr fyrir 10 skipti.

Strikið – 10 skipta kort kostar 25.000kr sem gera 2.500 kr í eitt skipti fyrir rétt af hádegisseðli

Rub23 – 10 skipta kort kostar 29.990 kr sem gera 2.990 kr fyrir eitt skipti af hádegishlaðborði eða rétt af hádegisseðli.

Krua Siam – 5 skipta kort kostar 12.375 kr sem gera 2.475 kr í hvert skipti fyrir hádegishlaðborð.

Bautinn – 10 skipta kort kostar 29.900 kr sem gera 2.990 kr í hvert skipti fyrir rétt dagsins.

Ketilkaffi – 10 skipta kort kostar 22.900 kr sem gera 2.290 kr í hvert skipti fyrir rétt dagsins.

Vissulega er Subway eini staðurinn sem er ódýrari en mötuneytið á þessum lista en taka þarf tillit til þess að hinir staðirnir eru allir hágæða veitingastaðir sem mötuneytið er alls ekki. Hvort vill maður borga 1.650 kr fyrir afganga í mötuneytinu eða 2.475 kr fyrir djúsí hádegishlaðborð á Krua Siam? Maður spyr sig.

 

Fleira skemmtilegt...