Hefð er fyrir því að bjóða nýnema velkomna í MA með því að leiða þá í allan sannleikann um hefðir skólans. Þriðjubekkingar taka árlega að sér það verkefni að skóla busana aðeins til og kenna þeim allra nauðsynlegustu söngvana sem meðal MA-ingurinn þarf að kunna svo sem Hesta-Jóa og heimaleikfimi. Ekki má gleyma árlegu danskeppni busabekkja á nýnemaballinu en að baki henni liggur mikil vinna böðla við að semja dansa og stífar æfingar og mikil eftirvænting er meðal nemenda að sjá hvaða bekkir það verða í ár sem negla þetta verkefni.
Spennan er ekki síst meðal böðla sem allir vilja stýra sínum busabekk til sigurs. Hvernig til tekst veltur þó mikið á því hversu til í tuskið nýnemarnir eru. Sumir bekkirnir eru bara meira með þetta en aðrir.
Orðið á götunni er að sá bekkur sem þykir líklegur til að gera góða hluti á fimmtudagskvöldið sé 1.H. Hann er þó í harðri samkeppni við 1.AF enda eru böðlarnir þeirra metnaðarfullir og taka ekkert annað í mál en sigur. Það er því ljóst að aðrir nýnemabekkir verða að hysja upp um sig buxurnar ætli þeir að eiga einhvern séns í sigurinn og má þar kannski sérstaklega nefna 1.V en heyrst hefur að þar sé dólgur í mönnum og ekki nægilegur stemmari. Eflaust taka glöggir lesendur eftir því að 1.AF er ekki með busaböndin á höfðinu á myndinni. Þetta er náttúrulega ekki boðlegt og skulu allir busar vera með þau innan veggja skólans
Hrímfaxi skorar á alla nýnema að setja egóið til hliðar, taka þátt og njóta nýnemavikunnar því þetta er lífsreynsla sem allir MA-ingar ganga í gegnum og tími sem kemur aldrei aftur.